Skilmálar greiðslulausnar

Skilmálar þessir gilda um Pei Greiðslulausn (hér einnig nefnt „Pei“) sem rekin er af Greiðslumiðlun ehf., kt. 540612-1020, Katrínartúni 4, 105 Reykjavík, (hér eftir „GM“), sem gefur viðskiptavinum seljanda kleift að greiða fyrir vöru og þjónustu en GM er eigandi þeirra krafna sem stofnast með Pei. GM og seljandi gera með sér sérstakan samning um aðgang að Pei og stofnun krafna en skilmálar þessir eru óaðskiljanlegur hluti af þeim samningi.

 
1. Skilgreining hugtaka sem notuð eru í skilmálum þessum:

  • Stofndagur er sá dagur þegar krafa stofnast með Pei.
  • Efndadagur er sá dagur eða þeir dagar sem greiðsluskylda GM gagnvart seljanda verður virk samkvæmt samningi aðila. Efndadagur er almennt einum degi eftir eindaga kröfu, enda sé um almennan opnunardag banka og sparisjóða að ræða, annars næsta bankadag eftir þann dag og er sá dagur eða þeir dagar sem greiðsluskylda GM gagnvart seljanda verður virk, nema um annað sé sérstaklega samið.
  • Aðili/aðilar eru GM og seljandi.
  • Greiðandi er viðskiptamaður seljanda sem er skuldari kröfu.
  • Pei er það kerfi GM sem gerir viðskiptavinum kleift að greiða fyrir vöru og þjónustu.
  • Seljandi/söluaðili er aðili sem gerir samning um aðgang að Pei.

2. Með samningi aðila, þar sem seljandi hefur m.a. gengist undir ákvæði skilmála GM eins og þeir eru á hverjum tíma, var ákveðið að GM veitti seljanda greiðslutryggingu með þeim hætti að GM væri eigandi þeirra krafna sem stofnast með Pei að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þessi skilyrði eru eftirfarandi:

a. Við stofnun kröfu þar sem seljandi slær inn helstu upplýsingar um greiðanda og fyrirhugað greiðslufyrirkomulag (oft nefnt Sölugátt eða veflausn) er þess krafist að greiðandi m.a. staðfesti með sannanlegum hætti að hann veiti GM heimild til að sækja upplýsingar um lánshæfismat hans til Creditinfo Lánstrausts hf. Einnig skal greiðandi staðfesta, sé um greiðsludreifingu að ræða, með þeim auðkenningarleiðum sem í boði eru að hann hafi kynnt sér skilmála GM og að með samþykki umsóknar og veitingu láns sé kominn á bindandi samningur milli aðila. Sú skylda hvílir á seljanda í þessum tilvikum að tryggja að frumrit samninga og þar með staðfestingar á heimild til upplýsingaöflunar séu varðveittar með fullnægjandi hætti. Einnig skal seljandi geyma frumrit þeirra umsókna þar sem fyrirgreiðslu er hafnað og getur GM kallað eftir frumritum og gögnum hvenær sem er en varsla þeirra fram til afhendingar er alfarið á ábyrgð seljanda.

b. Við stofnun kröfu í öðrum tilvikum, svo sem með netviðskiptum (Greiðslugátt) eða í gegnum kassakerfi skal tryggt:
i. að greiðandi hafi óskað eftir að greiða með Pei;
ii. að greiðandi hafi auðkennt sig í samræmi við kröfur GM; og
iii. að greiðandi uppfylli skilyrði GM.
 
Seljandi ber ábyrgð á tengingar við Pei séu í samræmi við kröfur GM og, notist seljandi við vefþjónustur GM við framkvæmd viðskipta, að upplýsingar sem að birtast greiðanda séu þær sömu gert er í Pei. Sé krafa stofnuð með öðrum hætti en að ofan greinir fellur hún utan gildissviðs samnings aðila og skilmála þessara og þarf þá að semja sérstaklega um meðferð slíkra krafna í hverju tilviki.
 
3. Seljandi skuldbindur sig til að bjóða upp á að þjónusta GM sé notuð til fullnaðargreiðslu á vöru. Skal greiðendum gert með skýrum hætti grein fyrir að unnt sé að greiða fyrir vöru með notkun á Pei. Seljandi skal tryggja að greiðendum séu ekki boðin lakari kjör með notkun Pei en með notkun annarra greiðsluaðferða. Þannig skal seljandi ekki velta kostnaði vegna notkunar Pei með beinum hætti á greiðanda.
 
4. GM er eigandi krafna sem falla undir samning aðila frá og með stofndegi og réttur móttakandi greiðslna.
 
5. Berist greiðsla á kröfu beint til seljanda, í heild eða að hluta, skal hann án tafar skila greiðslunni til GM, sem þá færir greiðsluna sem innborgun á kröfuna, eða eftir atvikum sem fullnaðargreiðslu.
 
6. GM notast við eigið matskerfi þar sem greiðendur eru metnir út frá ýmsum breytum. Um er að ræða upplýsingar sem fyrirtækið sjálft á auk upplýsinga frá utanaðkomandi söluaðilum upplýsinga. GM er ekki skylt að upplýsa seljanda eða greiðanda um uppbyggingu eða forsendur matsins né hvers vegna greiðanda er hafnað í einstökum tilvikum.
 
7. GM setur þak á heimild greiðanda til úttekta og áskilur sér rétt til breytinga á þeirri heimild hvenær sem er. GM getur jafnframt sett þak á fjárhæð einstakra reikninga og heildarfjárhæð ógreiddra krafna sem stofnaðar eru hjá seljanda og áskilur sér rétt til breytinga á þeim fjárhæðum hvenær sem er.
 
8. Seljandi ábyrgist að þegar krafa er stofnuð með Pei sé greiðandi upplýstur um skilmála viðskiptanna samkvæmt leiðbeiningum frá GM þar um og að þegar óskað hefur verið eftir þjónustu séu viðskipti endanleg og greiðsluskylda virk, nema lög áskilji annað.
 
9. Seljandi ábyrgist að ekki sé gefnar út tilhæfulausar kröfur með Pei. Komi í ljós að seljandi hafi sjálfur eða með aðstoð annarra aðila stofnað tilhæfulausar kröfur áskilur GM sér rétt til að segja upp samningi án frekari fyrirvara, framselja umræddar kröfur til seljanda gegn greiðslu ásamt því að krefjast bóta vegna þess tjóns sem aðgerðir seljanda hafa valdið. Misnotkun seljanda á Pei og þjónustu GM varðar við almenn hegningarlög.
 
10. Gjöld sem lögð eru á greiðanda við stofnun kröfu og önnur gjöld sem kunna að koma til á síðari stigum eru samkvæmt verðskrá og skilmálum GM á hverjum tíma. Gjöld þessi tilheyra GM ásamt þeim vöxtum sem bætast við kröfuna.
 
11. GM áskilur sér rétt til að kanna í upphafi viðskipta og á síðari stigum að afla sér upplýsingar um seljanda, starfsemi hans, orðspor og að forsendur útgefinna krafna séu réttar. GM kann að kalla eftir gögnum frá seljanda, s.s. ársreikningum.
 
12. Seljandi ábyrgist að ekkert vörureikningsveð, sbr. 47. gr. laga nr. 75/1997, um samningsveð, sé til staðar gagnvart þeim kröfum sem skilmálar þessir taka til. Jafnframt ábyrgist seljandi að hann muni ekki á gildistíma samnings aðila veita slíkt veð. GM er heimilt að afla upplýsinga úr lausafjárbók viðkomandi sýslumannsembættis þessu til staðfestingar.
 
13. Seljanda er óheimilt að nýta Pei til að taka við greiðslu fyrir hönd þriðja aðila.
 
14. Pei má ekki nýta sem greiðslumáta í ólögmætri starfsemi, svo sem í tengslum við vændi, klám, verslun með eiturlyf eða til peningaþvættis eða við fjármögnun hryðjuverka.
 
15. Verði seljandi þess áskynja að greiðandi sé að kaupa vörur eða þjónustu með því að villa á sér heimildir eða viðhafa aðra sviksamlega háttsemi ber honum að tilkynna slíkt umsvifalaust til GM og hafna viðskiptum sé þess kostur.

 

Greiðslur

16. Uppgjör vegna þeirra krafna sem stofnast með Pei fer fram á efndadegi hverrar kröfu sem tiltekinn er í samningi aðila.
 
17. Ef greiðandi fær að skipta greiðslu verður GM eigandi heildarkröfunnar við stofnun hennar. Greiðist heildarkrafan því til seljanda á efndadegi. Við vanskil einstakrar afborgunar er GM heimilt að gjaldfella heildar skuldina fyrirvaralaust og án uppsagnar.
 
18. Við uppgjör milli aðila er GM heimilt að draga frá þau gjöld, kostnað og annað það sem seljanda ber að greiða á grundvelli samnings aðila.
 

Reikningar og uppgjör

19. Seljandi ber ábyrgð að að gefa út löglega reikninga vegna sölu til greiðanda og standa skil á öllum sköttum og skyldum sem þeim fylgja.
 
20. GM getur, þegar þörf krefur, kallað eftir upplýsingum um reikninga og fengið afrit þeirra. Jafnframt getur GM kallað eftir ítarupplýsingum ef þurfa þykir. Slík upplýsingagjöf af hálfu seljanda skal vera án kostnaðar fyrir GM.
 

Afhending vöru

21. Seljandi ábyrgist gagnvart GM að sú vara og/eða þjónusta sem hann lætur greiðanda í té standist þær væntingar sem greiðandi má með réttu gera.
 
22. Til að tryggja að skráður greiðandi móttaki keypta vöru setur GM eftirfarandi skilyrði varðandi afhendingu vöru:
 
a. Sé vara afhent á starfstöð seljanda ábyrgist hann að varan sé einungis afhent þeim sem skráður er fyrir kaupunum í Pei.
b. Sé vara afhent utan starfstöðvar seljanda skal hún einungis afhent greiðanda gegn framvísun persónuskilríkja og undirritun sem staðfestir móttöku. Afhending vöru eða þjónustu til annars en greiðanda er alfarið á ábyrgð seljanda.
c. Við afhendingu vöru gegn greiðslu skal seljandi fara eftir leiðbeiningum GM við ferli viðskipta og útfyllingu skráningarskjala hvort sem er á pappírsformi eða með rafrænum hætti á skjá við afgreiðsluborð. Þannig skal seljandi m.a. tryggja að samræmi sé milli undirritunar og þess sem tilgreindur er sem greiðandi á samningi. Seljandi þarf að geta afhent GM fullgilda sönnun þess að afhending hafi farið fram með ofangreindum hætti.
 
23. Seljandi skal láta afrit reiknings fyrir vörukaupum fylgja með vörunni við afhendingu hennar.

 

Skil/breytingar/mótmæli

24. GM mun ekki taka að sér milligöngu eða takast á hendur ábyrgð, vegna nokkurs konar ágreinings milli seljanda og greiðanda, vegna vöru eða þjónustu sem greidd hefur verið með Pei. Þannig ber greiðendum að leita beint til seljanda sem ber ábyrgð á greiðslu bóta vegna galla, afhendingardráttar eða vegna annarra þeirra vanefndaúrræða sem standa greiðendum til boða. Helst því viðskiptasamband seljanda og greiðanda óbreytt og þeir viðskiptaskilmálar sem um kaupin gilda.
 
25. Seljandi getur fram að efndadegi fellt niður kröfu á vefsvæði GM. Gjöld vegna niðurfellinga eru skilgreind í verðskrá GM á hverjum tíma.
 
26. Eftir að efndadagur er liðinn er seljanda ekki heimilt að breyta eða fella niður kröfu án samþykkis GM. Hyggist seljandi veita greiðanda afslátt eða heimila skil á vöru/þjónustu eftir efndadag skulu slík mál leyst milli seljanda og greiðanda í samráði við GM. Í þessum tilfellum ábyrgist seljandi fullar efndir á kröfu GM þannig að sé krafa lækkuð eða felld niður eftir efndadag stofnast krafa GM á hendur seljanda sem jafngildir fullum efndum kröfunnar þ.m.t. greiðslu dráttarvaxta og kostnaðar. Krafa þessi innheimtist sérstaklega en GM áskilur sér rétt til að draga frá í næsta uppgjöri milli aðila fjárhæð sem dugir til fullra efnda kröfunnar.
 
27. Seljandi vörunnar getur eftir efndadag ákveðið að kaupa einstakar kröfur með því að greiða GM að fullu viðkomandi kröfu eins og hún stendur hverju sinni.
 
28. GM getur framselt tilteknar kröfur til seljanda eða eftir atvikum fellt þær niður í kerfum sínum og krafið seljanda um endurgreiðslu kaupverðs auk kostnaðar komi eftirfarandi í ljós eftir efndadag:

 
a. Að skilyrði greinar 21 samnings þessa um afhendingu vöru hafa ekki verið uppfyllt eða afhending hefur ekki átt sér stað eða dregist.
b. að stofnun réttmætrar kröfu GM hafi ekki átt sér stað af ástæðum er varða seljanda, t.d ef krafa hefur þegar verið seld eða er veðsett öðrum aðila.
c. ef ágreiningur er milli seljanda og greiðanda vegna keyptrar vöru og/eða greiðandi hafnar að greiða kröfu á öðrum forsendum en varðar getu hans til að greiða kröfuna.
d. ef GM má með réttu ætla að greiðandi sé einstaklingur eða lögaðili sem er tengdur seljanda, t.d. hluthafi eða starfsmaður seljanda eða fyrirtæki í sömu samstæðu og seljandi.
e. ef um kaup er að ræða þar sem greiðandi fær reiðufé eða sambærileg verðmæti gegn stofnun kröfu.
f. ef um kaup er að ræða þar sem greiðandi hefur nýtt sér lögbundinn skilarétt sinn eða ef seljandi hefur veitt greiðandi lengri en lögbundinn skilarétt.

Komi til þess að stofnun kröfu gangi til baka ber seljanda að greiða GM auk fjárhæð kröfunnar allan kostnað og vexti sem fallið hafa á kröfuna eftir að kaup áttu sér stað.

 

Innheimta

29. GM innheimtir kröfur í eigin nafni en lætur nafn seljanda ætíð getið í tengslum við innheimtuna þannig að greiðanda sé ljós uppruni kröfunnar.
 
30. GM ábyrgist að við innheimtu kröfu sé farið að lögum og reglum og að ávallt sé fylgt góðum innheimtuháttum og að greiðendum sé sýnd virðing og að gætt sé að orðspori seljanda. Komi til vanskila vegna kröfu þar sem keyptur er aðgangur að þjónustu sem er veitt fram í tímann (t.d. æfingagjöld) eða reglubundið (t.d. fjarskiptaþjónusta) er GM heimilt að tilkynna greiðanda að þjónustunni kunni að verða sagt upp. Berist greiðsla ekki eftir slíka tilkynningu ber seljanda að segja þjónustunni upp tafarlaust eftir að honum berst tilkynning frá GM um að loka þurfi fyrir þjónustuna. Sé þjónustu ekki sagt upp eða lokað fyrir hana er GM heimilt að framselja kröfu til seljanda í samræmi við ákvæði 27. gr. skilmála þessa. Hafi greiðslu verið skipt getur GM í þessum tilvikum einnig framselt til seljanda þær kröfur sem ekki eru komnar á eindaga.
 
31. GM sendir út innheimtuviðvörun og tíu dögum síðar er krafan send til frekari innheimtu.
 

 

Persónuvernd

32. Ákvæði þessa kafla kveða á um skuldbindingar aðila í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga skv. samstarfssamningi aðila.
 
33. Tilgangur vinnslu persónuupplýsinga samkvæmt samstarfssamningnum er að gera seljanda kleyft að bjóða viðskiptavinum sínum upp á að greiða fyrir vöru eða þjónustu með greiðsluleiðum sem GM býður upp á hverju sinni.
 
34. Vinnsla persónuupplýsinga tekur til þeirra upplýsinga um notendur þjónustunnar sem eru nauðsynlegar til að hægt sé að veita hana í samræmi við samning aðila.
 
35. Aðilum er einvörðungu heimilt að vinna persónuupplýsingar á þann hátt og að því marki sem er nauðsynlegt til að uppfylla skyldur skv. samstarfssamningi aðila, lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nú nr. 90/2018 eða öðrum lögboðnum fyrirmælum. Aðilar skulu hvor fyrir sig kappkosta að:

a. uppfylla ákvæði laga um persónuvernd, að teknu tilliti til eðlis vinnslunnar og þeirra upplýsinga sem aðilar hafa aðgang að, þ.m.t. í tengslum við réttindi skráðra einstaklinga, mat á öryggisráðstöfunum og tilkynningar til Persónuverndar;
b. bera ábyrgð á að veita hinum skráðu viðeigandi upplýsingar (fræðslu) um vinnsluna í samræmi við löggjöf um persónuvernd, þ.m.t. með aðgengilegri persónuverndarstefnu;
c. tryggja trúnað um vinnslu þeirra persónuupplýsinga sem samstarfssamningur aðila tekur til. Aðilar skulu einnig tryggja að starfsmenn og aðrir sem hafa aðgang að persónugreinanlegum upplýsingum séu bundnir trúnaði og fái fullnægjandi þjálfun við vinnslu og meðferð persónuupplýsinga. Trúnaðarskylda helst eftir gildistíma samstarfssamnings aðila;
d. eyða eða afhenda allar persónugreinanlegar upplýsingar sem ekki er skylda til að varðveita samkvæmt lögum;
e. gæta þess að tæki og tól, vörur, forrit og þjónusta séu hönnuð með innbyggða og sjálfgefna persónuvernd að leiðarljósi: og
f. gera viðeigandi öryggisráðstafanir ef persónuupplýsingar eru fluttar út fyrir Evrópska efnahagssvæðið.
 
36. Seljandi skal tilkynna GM eins fljótt og kostur er ef hann fær beiðni frá skráðum einstaklingi sem varðar réttindi hans samkvæmt lögum um persónuvernd. Seljandi skal ekki upplýsa um neina þá vinnslu persónuupplýsinga sem er unnin í tengslum við samstarfssamning aðila án leyfis GM.
 
37. Aðilar skulu gera viðeigandi tæknilegar og skipulagslegar öryggisráðstafanir til að tryggja öryggi þeirra persónuupplýsinga sem þeir vinna.
 
38. Seljanda ber að tilkynna GM innan 24 klukkustunda hafi hann ástæðu til að ætla að orðið hafi öryggisbrestur við meðferð persónuupplýsinga. Slík tilkynning skal send með tölvupósti á netfangið personuvernd@greidslumidlun.is. Í tilkynningunni skal seljandi lýsa eðli brotsins, þar á meðal fjölda skráðra einstaklinga sem það varðar, líklegum afleiðingum þess og til hvaða ráðstafana hefur verið gripið.
 
39. Seljandi skal veita GM alla þá aðstoð sem honum er unnt til að uppfylla skyldur sem á GM kunna að hvíla vegna ákvæða laga og reglna um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
 
40. Seljandi ábyrgist að halda GM skaðlausu af hvers kyns kostnaði sem GM kann að verða fyrir vegna vanefnda seljanda á þessum kafla skilmálanna og ákvæðum samnings aðila um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

 

Breytingar á skilmálum

41. GM áskilur sér rétt til að gera breytingar á skilmálum þessum og þeirri þjónustu sem veitt er á grundvelli samnings aðila, t.d. vegna breytinga á lagaumhverfi. Breytingar á skilmálum eru kynntar seljanda með tilkynningu með tölvupósti á netfang það sem hann hefur gefið upp með a.m.k. 7 daga fyrirvara áður en breytingarnar taka gildi. Haldi seljandi áfram að nota þjónustu GM eftir að breyttir skilmálar hafa tekið gildi telst hann hafa samþykkt þá. Sætti seljandi sig ekki við breytta skilmála getur hann sagt upp samningi aðila og skal þá hætta að bjóða upp á Pei sem möguleika við kaup á vöru eða þjónustu.

 

Ýmis ákvæði

42. Komi til atvik sem valda öðrum hvorum aðila verulegum álitshnekki, sem minnki verulega líkur á innheimtu krafna er hinum aðilanum heimilt að rifta samningi aðila eða viðskiptum vegna tiltekinna krafna og framselja ógreiddar kröfur gegn endurgreiðslu þeirra fjármuna sem inntir hafa verið af hendi vegna þeirra auk kostnaðar.
 
43. GM ber aðeins ábyrgð gagnvart seljanda ef tjón verður rakið til stórfellds gáleysis eða ásetnings starfsmanna GM. GM ber ekki ábyrgð á afleiddu tjóni, t.d. vegna fækkun viðskipta, rekstrarstöðvunar eða álitshnekkis.
 
44. Aðilar skulu gæta fyllsta trúnaðar um efni samnings þeirra sem byggja á skilmálum þessum. Aðilar skulu jafnframt gæta fyllsta trúnaðar um hvaðeina sem þeir verða áskynja um í rekstri gagnaðila að svo miklu leyti sem eðlilegt er að slíkar upplýsingar séu trúnaðarmál. Þrátt fyrir framangreint þá skal aðilum vera heimilt að nota nafn og vörumerki gagnaðila í kynningarefni sínu.
 
45. Við lok samnings aðila, með hvaða hætti sem er, skal seljandi þegar í stað fjarlægja úr kynningarefni alla vísun til GM eða Pei.
 
46. Rísi ágreiningur sem á rót sína í skilmálum þessum sem ekki tekst að ljúka með samkomulagi má reka mál þar um fyrir
Héraðsdómi Reykjavíkur.

 

Þessi vefsíða
notar vafrakökur

Nánari upplýsingar Samþykkja notkun

Stillingar fyrir vafrakökur

Samþykkja notkun