Skilmálar

Með samþykki á skilmálum þessum öðlast viðskiptavinur aðgang að greiðslulausnum Greiðslumiðlunar, en skilmálarnir gilda um samninga þá sem stofnast þegar greiðslulausnir Greiðslumiðlunar eru notaðar til að greiða fyrir vöru eða þjónustu. Eftir því sem við á eiga skilmálarnir einnig við um lánveitingar skv. lögum um neytendalán nr. 33/2013.

1. Umsókn

  1. Viðskiptavinur beinir umsókn til Greiðslumiðlunar um heimild til að nota greiðslulausnir Greiðslumiðlunar til þess að greiða fyrir vöru og þjónustu. Með því að beina slíkri umsókn til Greiðslumiðlunar samþykkir viðskiptavinur skilmála þessa. Greiðslumiðlun setur þau skilyrði fyrir samþykkt umsóknar að viðskiptavinir hafi náð 18 ára aldri og séu fjárráða. Einnig er almennt gerð sú krafa að viðskiptavinir séu með virkt netfang og séu rétthafar að farsímanúmeri sem gefið er upp í tengslum við umsókn þeirra og er notað í samskiptum milli aðila. Greiðslumiðlun getur hafnað umsókn þótt framangreind skilyrði séu uppfyllt eða samþykkt umsókn án þess að öll skilyrði séu uppfyllt. Með samþykki umsóknar tekur samningur aðila gildi.
  2. Viðskiptavinur getur ávallt afturkallað umsókn sína eða sagt upp samningi í samræmi við skilmála þessa. Afturköllun umsóknar eða uppsögn skal vera skrifleg.

2. Úttektarheimild

  1. Eftir gildistöku samnings fær viðskiptavinur úttektarheimild sem er ákvörðuð af Greiðslumiðlun. Viðskiptavinur sem fær úttektarheimild getur greitt fyrir vörur eða þjónustu hjá þeim aðilum sem eru í samstarfi við Greiðslumiðlun, að því marki sem rúmast innan úttektarheimildarinnar.
  2. Við mat á umsóknum og við ákvörðun úttektarheimilda notast Greiðslumiðlun við matskerfi þar sem viðskiptavinir eru metnir út frá ýmsum breytum, þar á meðal upplýsingum frá fjárhagsupplýsingastofum eins og Creditinfo Lánstrausti hf. og viðskiptasögu viðskiptavinar við Greiðslumiðlun. Greiðslumiðlun er ekki skylt að upplýsa viðskiptavini um uppbyggingu eða forsendur matsins né hvers vegna viðskiptavini eða einstökum viðskiptum er hafnað. Greiðslumiðlun áskilur sér rétt til breytingar á veittri úttektarheimild án fyrirvara.

3. Framkvæmd viðskipta

  1. Þegar viðskiptavinur notar greiðslulausnir Greiðslumiðlunar til að greiða fyrir vöru eða þjónustu velur hann greiðsluleið og krafa stofnast. Sé greitt með greiðsluseðli birtist hann sjálfkrafa í heimabanka viðskiptavinar. Gjalddagi kröfunnar er á stofndegi hennar nema um annað sé samið sérstaklega.
  2. Greiðslufrestur og þar með eindagi kröfu er tilgreindur við stofnun kröfu en viðskiptavinir geta jafnan valið að skipta greiðslum með greiðsludreifingu með þeim hætti sem boðið er upp á í hvert sinn.

4. Kostnaður og vextir

  1. Viðskiptavinur skal greiða kostnað skv. skilmálum þessum og verðskrá Greiðslumiðlunar, þ.m.t. vegna stofnunar kröfu, vegna greiðsludreifingar, vexti og önnur gjöld, þar á meðal þau sem kunna að koma til á síðari stigum. Greiðslumiðlun birtir á heimasíðu sinni verðskrá þá sem í gildi er á hverjum tíma.

5. Eindagi og áhrif vanskila

  1. Viðskiptavini ber að greiða úttektir sínar í síðasta lagi á eindaga hverrar kröfu. Berist greiðsla ekki á þeim degi reiknast dráttarvextir, í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, af vanskilum, frá gjalddaga og til greiðsludags. Á meðan krafa hefur ekki verið greidd geta vanskil leitt til þess að lokað verði á frekari úttektir viðskiptavinar og þá þjónustu sem úttekt átti að greiða fyrir.
  2. Greiðslumiðlun sendir út innheimtuviðvörun eftir eindaga hafi viðskiptavinur ekki greitt kröfuna. Að jafnaði er krafan send til frekari innheimtu tíu dögum síðar. Viðskiptavini ber að greiða þann kostnað sem af innheimtu kröfunnar hlýst.
  3. Með samþykki skilmála þessara heimilar viðskiptavinur Greiðslumiðlun að tilkynna langvarandi vanskil til Creditinfo lánstrausts hf., til skráningar yfir vanskil. Öll vanskil sem hafa varað lengur en í 40 daga frá gjalddaga teljast langvarandi í skilningi þessa ákvæðis.
  4. Verði verulegar vanefndir af hálfu viðskiptavinar á einhverri skuldbindingu sinni er Greiðslumiðlun heimilt að gjaldfella allar útistandandi kröfur fyrirvaralaust og án uppsagnar. Sama gildir ef gert er fjárnám hjá viðskiptavini, lögð er fram beiðni um nauðungarsölu á eign hans, hann óskar eftir greiðslustöðvun, leitar nauðasamninga, krafist er gjaldþrotaskipta á búi hans eða ljóst er að mati Greiðslumiðlunar að viðskiptavinur geti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Útistandandi skuld ber þá dráttarvexti af gjaldfallinni eða gjaldfelldri fjárhæð, í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.
  5. Greiðslumiðlun er einnig heimilt að gjaldfella allar útistandandi kröfur fyrirvaralaust og án uppsagnar ef að viðskiptavinur uppfyllir ekki lengur skilyrði skilmála þessara fyrir gerð samnings, til dæmis ef netfang eða farsímanúmer verður óvirkt án þess að breytingar hafi verið tilkynntar Greiðslumiðlun eða viðskiptavinur tekur upp fasta búsetu utan Íslands.

6. Kvartanir

  1. Greiðslumiðlun tekur ekki að sér milligöngu eða ber ábyrgð, vegna nokkurs konar ágreinings milli seljanda og viðskiptavinar vegna vöru eða þjónustu sem greidd hefur verið með greiðslulausnum Greiðslumiðlunar. Þannig ber viðskiptavini að leita beint til seljanda sem ber ábyrgð á greiðslu bóta vegna galla, afhendingardráttar eða vegna annarra þeirra vanefndaúrræða sem standa viðskiptavinum til boða. Helst því viðskiptasamband seljanda vöru eða þjónustu og viðskiptavinar óbreytt og þeir viðskiptaskilmálar sem um kaupin gilda.

7. Upplýsingar um viðskiptavini

  1. Greiðslumiðlun vinnur persónuupplýsingar um viðskiptavini að því marki sem nauðsynlegt er til að veita þjónustu samkvæmt samningi þessum. Við öflun og meðferð persónuupplýsinga er gætt fyllsta öryggis og ákvæða laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Frekari upplýsingar um vinnslu persónuupplýsinga er að finna í persónuverndarstefnu Greiðslumiðlunar, sem er aðgengileg á vef félagsins, www.greidslumidlun.is.
  2. Viðskiptavinur samþykkir að símtöl milli starfsmanna Greiðslumiðlunar og viðskiptavinar kunna að vera hljóðrituð án þess að þess sé sérstaklega getið í upphafi hvers símtals, en tilgangur með símaupptökum er að varðveita heimildir um samskipti milli aðila. Hljóðritun byggir á 48. gr. laga nr. 81/2003 um fjarskipti. Greiðslumiðlun ábyrgist ekki að öll símtöl verði hljóðrituð og Greiðslumiðlun ber ekki ábyrgð ef símtal hefur ekki verið hljóðritað. Viðskiptavinur samþykkir að Greiðslumiðlun er heimilt að nýta hljóðritanir í dómsmáli.
  3. Viðskiptavinur heimilar Greiðslumiðlun að sækja upplýsingar um sig til Creditinfo lánstrausts hf. eða annarrar sambærilegrar fjárhagsupplýsingastofu, s.s. lánshæfismat, upplýsingar úr vanskilaskrá og aðrar upplýsingar sem sem félagið miðlar og kunna að hafa þýðingu fyrir ákvarðanatöku í viðskiptum aðila. Viðskiptavinur samþykkir að slíkar upplýsingar séu notaðar við ákvörðunartöku í tengslum við viðskipti, eftirlit í tengslum við slík viðskipti og í öðrum þeim tilvikum þegar Greiðslumiðlun hefur lögvarða hagsmuni af notkun umræddra upplýsinga. Viðskiptavinur samþykkir sömuleiðis að ákvörðun um viðskipti sé tekin með sjálfvirkum hætti. Viðskiptavinur heimilar Greiðslumiðlun að miðla skráðu netfangi sínu til Creditinfo vegna uppflettingar á lánshæfismati og að Creditinfo geti sent tilkynningu með tölvupósti þess efnis til viðskiptavinar.
  4. Viðskiptavinur getur afturkallað samþykki sitt skv. þessari grein og skal slík afturköllun taka gildi 30 dögum eftir að Greiðslumiðlun hefur sannanlega móttekið slíka afturköllun. Þá fellur samþykki þetta úr gildi þegar lánsviðskiptum aðila lýkur. Fram til þess tíma hefur Greiðslumiðlun heimild til að sækja og nota þær upplýsingar sem samþykki þetta tekur til að fullnægðum þeim skilyrðum sem fram koma í skilmálum þessum. Afturkalli viðskiptavinur samþykki sitt getur það leitt til þess að Greiðslumiðlun hafni frekari viðskiptum.

8. Upplýsingar og tilkynningar

  1. Viðskiptavinur skuldbindur sig til að hlíta þeim skilmálum sem gilda um þjónustu Greiðslumiðlunar á hverjum tíma. Viðskiptavini ber að tilkynna Greiðslumiðlun þegar í stað verði breytingar á skráðum upplýsingum svo sem heimilisfangi, símanúmeri eða netfangi, með því að uppfæra skráningu á kaupendavef Greiðslumiðlunar, sem er aðgengilegur á www.greidslumidlun.is. Vanræksla viðskiptavinar á tilkynningu getur leitt til gjaldfellingar á öllum útistandandi kröfum en á meðan tilkynning um breytingar hefur ekki borist getur Greiðslumiðlun ekki ábyrgst að tilkynningar berist viðskiptavini. Tilkynningar Greiðslumiðlunar til viðskiptavinar eru sendar með SMS-skeyti, tölvupósti eða bréfi á það heimilisfang, símanúmer eða netfang sem hann hefur gefið upp.
  2. Viðskiptavinur staðfestir að honum sé ljóst að notkun tölvupósts og annarra rafrænna samskiptaleiða tryggi ekki leynd eða öryggi samskipta. Greiðslumiðlun ber enga ábyrgð á tjóni sem viðskiptavinur kann að verða fyrir vegna þess að framangreindar samskiptaleiðir voru notaðar.

9. Breytingar á skilmálum

  1. Greiðslumiðlun áskilur sér rétt til að gera breytingar á skilmálum þessum og þeirri þjónustu sem veitt er á grundvelli samnings aðila, t.d. vegna breytinga á lagaumhverfi. Séu breytingar á skilmálum íþyngjandi eru þær kynntar viðskiptavini með tilkynningu með tölvupósti á netfang það sem hann hefur gefið upp með a.m.k. 15 daga fyrirvara áður en breytingarnar taka gildi. Haldi viðskiptavinur áfram að nota þjónustu Greiðslumiðlunar eftir að breyttir skilmálar hafa tekið gildi telst hann hafa samþykkt þá. Sætti viðskiptavinur sig ekki við breytta skilmála getur hann sagt upp samningi aðila.

10. Uppsögn samnings

  1. Um samning viðskiptavinar og Greiðslumiðlunar gilda lög nr. 33/2005, um fjarsölu á fjármálaþjónustu. Samkvæmt ákvæðum þeirra laga hefur viðskiptavinur rétt til að falla frá samningi án greiðslu og viðurlaga og án þess að tilgreina nokkra ástæðu, ef viðskiptavinur sendir tilkynningu þar að lútandi til Greiðslumiðlunar innan 14 daga frá þeim degi sem viðskiptavinur hefur móttekið þessa skilmála.
  2. Frestur til að falla frá samningi byrjar að líða þegar viðskiptavinur hefur samþykkt skilmálana. Ef síðasti dagur frestsins fellur á helgi eða er frídagur, lýkur frestinum næsta virka dag. Falli viðskiptavinur frá samningi eftir að umsókn hans berst Greiðslumiðlun, en áður en umsókn er afgreidd, hefur Greiðslumiðlun heimild til að krefja viðskiptavin um greiðslu fyrir þá þjónustu sem þegar hefur verið innt af hendi, samanber ákvæði 14. gr. laga um fjarsölu á fjármálaþjónustu. Ef viðskiptavinur óskar eftir því að falla frá samningi skal hann senda beiðni sína skriflega til Greiðslumiðlunar áður en fresturinn rennur út. Falli viðskiptavinur frá samningi skal hann greiða þá fjárhæð sem hann hefur fengið frá Greiðslumiðlun auk framangreindrar greiðslu. Réttur til að falla frá samningi gildir ekki um þá samninga sem hafa verið efndir að fullu af báðum aðilum að ósk viðskiptavinar.
  3. Tilkynningu um að viðskiptavinur falli frá samningi skal beina til Greiðslumiðlunar með sannanlegum hætti. Óski viðskiptavinur eftir að segja upp samningssambandi við Greiðslumiðlun af öðrum ástæðum skal tilkynningu þess efnis beint til Greiðslumiðlunar með sannanlegum hætti. Eftir uppsögn getur viðskiptavinur ekki óskað eftir frekari þjónustu.

11. Ýmis ákvæði

  1. Með samþykki viðskiptavinar á skilmálum þessum stofnast fjarsölusamningur um fjármálaþjónustu á milli Greiðslumiðlunar ehf., kt. 540612-1020, Katrínartúni 4, 105 Reykjavík (Greiðslumiðlun) og viðskiptavinar í skilningi laga nr. 33/2005, um fjarsölu á fjármálaþjónustu.
  2. Viðskiptavinum er óheimilt að framselja réttindi sín eða skyldur samkvæmt skilmálum þessum eða samningum nema með fengnu fyrirfram skriflegu samþykki Greiðslumiðlunar.
  3. Greiðslumiðlun er heimilt að framselja réttindi sín og skyldur samkvæmt skilmálum þessum eða samningum aðila í heild eða að hluta til þriðja aðila án samþykkis viðskiptavina.
  4. Skilmálar þessir eru með fyrirvara um ákvarðanir stjórnvalda, styrjaldir, kjarnorkuslysa eða önnur atriði sem talin verða falla undir “force majeure” tilvik þannig að aðilum verði ómögulegt að efna skilmála þessa og samninga aðila. Í þeim tilvikum getur Greiðslumiðlun að undangenginni tilkynningu til viðskiptavinar gjaldfellt reikning með 10 daga fyrirvara. Þá eru aðilar einnig sammála um að ákveði yfirvöld, t.d. skattayfirvöld, að leggja á skatta, gjöld eða álögur á viðskipti sem samningsskilmálar þessir taka til, skuldbindur viðskiptavinur sig til að greiða slíkt beint til viðkomandi yfirvalda að skaðlausu fyrir Greiðslumiðlun.
  5. Greiðslumiðlun ber ekki ábyrgð á tjóni, beinu eða óbeinu, sem kann að orsakast af tæknilegum bilunum eða villum í hugbúnaði, stýrikerfum, netkerfum, fjarskiptakerfum, rofi eða truflunum í slíkum kerfum, rafmagnsleysi, bilunum og truflunum í tækjum og vélbúnaði hvort sem slíkur búnaður er í eigu eða notaður af Greiðslumiðlun eða notaður af hálfu annarra. Viðskiptavinur getur ekki krafið Greiðslumiðlun um bætur vegna tjóns, beins eða óbeins, vegna sambandsleysis, rofa á fjarskiptum eða annarra truflana sem kunna að verða á rekstri fjarskiptanetsins hvort sem slíkt má rekja til línubilana, bilana í stöðvum eða annarra ástæðna, sbr. 40. gr. laga nr. 81/2003, um fjarskipti. Ef framangreind tilvik koma í veg fyrir að Greiðslumiðlun geti staðið við samningsskyldur sínar við viðskiptavin sinn, í heild eða að hluta, og skal þá skylda Greiðslumiðlunar frestast þar til framangreindu ástandi léttir og hægt er að framkvæma þau. Ef framangreint ástand leiðir til þess að ekki er hægt að inna af hendi greiðslur eða taka við greiðslum í samræmi við samningsskyldur, skulu hvorki viðskiptavinur né Greiðslumiðlun þurfa að greiða vexti vegna þess að slíkar greiðslur frestast.
  6. Komi til þess að ákvæði samningsskilmála eða samnings verður metið andstætt lögum skal það ákvæði teljast ógilt en önnur ákvæði skulu að öðru leyti standa óbreytt og halda áfram gildi sínu milli Greiðslumiðlunar og viðskiptavinar.
  7. Rísi ágreiningur sem á rót sína í skilmálum þessum sem ekki tekst að ljúka með samkomulagi má reka mál þar um fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Skilmálar þessir gilda frá apríl 2021. Greiðslumiðlun ehf.

 

Þessi vefsíða
notar vafrakökur

Nánari upplýsingar Samþykkja notkun

Stillingar fyrir vafrakökur

Samþykkja notkun